Deguarnir eru, líkt og naggrísirnir og kanínurnar, jurtaætur sem þurfa 80% hey í fæðuna hjá sér til að viðhalda heilbrigðri meltingu og heilbrigðum tönnum. Heyið hálpar við að halda tönnunum í réttri lengd. Ef degu borðar ekki nóg af heyi þá geta tennurnar vaxið of mikið og byrjað að meiða deguinn.
Passa þarf líka að gefa ekki of kalk mikið grænmeti þar sem degu getur fengið þvagkristalla ef hann borðar of mikið kalk. Það sést á þvagi degusins hvort hann sé að fá of mikið kalk því þá verður pissið hvítt. Passa þarf líka að gefa degu ekki mikið af ávöxtum, jafnvel bara sem smá nammi 1-2x í viku. Deguar eiga nefnilega auðveldlega með að fá sykursýki og því þarf rosalega mikið að passa sykurinn bæði í grænmetinu og namminu sem þeim er gefið.
Gott er að vera með heilfóður fyrir degu líka og hollt heilfóður er ekki með sykri í né ávaxtasykri. Gott heilfóður er t.d ekki búið til úr gulrótum eða með berjum í eins og oft er í heilfóðri fyrir kanínur eða naggrísi. Gulrætur, rauð paprika og ávextir er t.d eitthvað sem degu ætti helst að sleppa að fá þó það sé í lagi í rosalega miklu hófi sem nammibiti. Betra er að halda sig við dökk grænt grænmeti og kryddjurtir handa þeim.
Ef þeim er gefið múslí fóður þarf að passa að það sé ekki of mikið af sólblómafræjum eða hnetum í fóðrinu þar sem það er fitandi og getur þá ýtt undir að þeir fái sykursýki. Einnig er ekki gott ef uppfyllingarefnið maís er í fóðrinu þeirra því það inniheldur mikinn náttúrulegan sykur. Það er gott því að fylgjast vel með þyngd degua með því að vigta þá reglulega.
Ef degu grennist líka skyndilega eða byrjar að drekka mikið meira þá er ráðlagt að fara með hann í skoðun til læknis.