Ungafullir og pörun hamstra – Höfundur Alexandra Dögg
Ef þú hefur grun um að þú sért með ungafullan kvenkyns hamstur, lestu þá í gegnum upplýsingarnar sem koma hér fyrir neðan. Þær upplýsingar munu segja þér allt um hver merki óléttu eru, hvernig allt ferlið gengur fyrir sig, hvernig ungar þroskast og að hverju þarf að huga. Þó við séum að gefa þér þessar upplýsingar þá þýðir það ekki að við styðjum við óábyrga ræktun, þessi grein er skrifuð fyrir þá aðila sem hafa til dæmis óvart keypt sér kvenkyns hamstur án þess að vita til þess að hún væri ungafull, ef hamstur hefur sloppið og náð að parast við annan hamstur á heimilinu eða þess háttar. Óábyrg ræktun hamstra mun bitna á saklausum hömstrum og þeirra ungum og er alls ekki réttlát gagnvart þeim, það er hellings vinna sem fer í ábyrga ræktun og hún er erfið.
Greinin var skrifuð með aðallega Syrian hamstra/gullhamstra í huga en mun koma til gagns í öðrum tilfellum líka.
Flest þau einkenni sem fólk heldur oft að eigi bara við um ungafulla hamstra eru í rauninni bara venjulegar hegðunir sem hamstrar sýna. Ungafullir hamstrar munu grafa meira, búa til bæli, safna meiri mat og þess háttar – en þetta er líka allt eitthvað sem margir hamstrar munu gera.
Merki óléttu:
Meðganga hamstra varir í 16 daga. Sumar vefsíður munu halda fram að 16-18 dagar sé venjuleg meðganga en það er ekki alveg rétt, yfirleitt koma ungarnir akkúrat á degi 16. Oft getur þú séð skýr merki þess að hamsturinn sé ungafullur á degi 10, hún verður breiðari um sig og meira eins og pera í laginu. Spenarnir byrja að stækka og standa meira út. Mikilvægt er að hafa í huga að kvenkyns hamstrar eru með flata spena og því er það nokkuð skýrt merki þegar það breytist.
Meðganga:
Þú verður að gefa hamstrinum næringaríkan og góðan mat á meðan meðgöngu stendur og á meðan ungarnir eru á spena. Þú vilt gefa aðeins meira prótein en vanalega en verður líka að passa að ofgera því ekki, ef hún fær alltof mikið prótein á meðgöngu eru miklar líkur á því að ungarnir stækki of fljótt og fæðingin yrði erfiðari. Hugmyndir af mat sem innihalda meira prótein eru t.d kjúklingur og mjölormar. Þú mátt líka gefa egg og tofu en það er ekki nóg eitt og sér, þar sem prótein prósentan er ekki það há. Besti tíminn til að auka við prótein er eftir að ungarnir eru fæddir.
Aðrir hlutir sem þú þarft að huga að þegar það styttist í got
Að búið sé að þrífa búrið 3 dögum fyrir fæðingu
Að það sé búið að taka allt sem ungarnir gætu fest sig í, eins og til dæmis göng og hæðir
Að það sé búið að fjarlægja sandinn
Að hjólið sé tekið, upp á að mamman fari ekki að hlaupa með viðkvæma litla unga fasta á spena
Eftir að ungarnir fæðast:
Ólíkt músum og rottum þá eru hamstrar nokkuð líklegir til að éta ungana sína ef þeim finnst þess vera þörf. Mömmur sem eru með unga í fyrsta skipti eiga það til að vera smá ruglaðar og þurfa því smá tíma til að aðlagast. Vegna þess geta þær skilið ungana eftir út um allt búr, en það er mikilvægt að grípa ekki inn í og færa ungana. Það getur ollið of miklu stressi fyrir mömmuna sem getur orðið til þess að hún éti þá. Stress, of lítil búr og of lítið prótein getur valdið þess að mamman éti ungana.
Þær gjóta oftast á næturnar, einstaka sinnum á daginn. Þú getur sett handklæði eða teppi yfir hálft búrið, þar sem hún bjó til hreiður og átti ungana. Eftir það skaltu láta hana í friði og eingöngu opnað búrið til að gefa mat og vatn. Á þessum tímapunkti getur þú farið að gefa henni meira aukalega – eins og til dæmis meira prótein.
Ekki reyna að kíkja í hreiðrið hjá henni, og ekki taka myndir. Það getur gert mömmuna mjög stressaða. Þó allar mömmur séu ekki endilega eins er best að forðast allt stress svo hún fái að koma ungunum á legg í friði.
Þegar ungarnir eru um fimm daga munu þeir byrja að fá lit (pigment). Um átta daga gamlir byrja þeir að borða þann mat sem mamman færir þeim og einnig saur frá mömmunni. Það er eðlilegt, það hjálpar þarmaflórunni. Á þeim aldri getur þú farið að gefa þeim gúrku í hreiðrið svo þeir fái nægan vökva. Um tíu daga gamlir fara þeir að fara úr hreiðrinu. Um fjórtán daga gamlir byrja þeir að hlaupa um allt búrið og halda mömmu sinni mjög upptekni. Þeir opna augun á milli fjórtán til átján daga gamlir, eftir það getur þú farið að snerta þá.
Handfjötlun og hreinsun á búri:
Ungar eru mikið á hoppi og skoppi. Mæli með að halda eingöngu á þeim á einhverju mjúki, svona svo þeir lendi ekki á einhverju hörðu ef þeir hoppa úr höndunum á þér. Áður en þú tekur þá upp skaltu vera viss um að mömmu þeirra finnist það í lagi.
Þú vilt þrífa búrið þeirra eftir að augun eru opnuð. Mæli með að vera með tvö búr tilbúin, eitt fyrir mömmu þeirra þar sem hún getur setið með mat tilbúinn, og annað fyrir ungana. Settu mömmuna eina í annað búrið með mat (og hjól ef hún hefur áhuga, en ekki setja hjólið í búrið þeirra allra) og alla ungana saman í hitt. Þrífðu svo búrið en skildu eftir eins mikið af hreiðrinu og hægt er.
Eftir að þú þrífur búrið, settu mömmuna eina í það og leyfðu henni að skoða sig um. Notaðu þetta tækifæri til að handfjatla ungana og kyngreina þá.
Svo setur þú þá aftur í búrið til mömmu þeirra. Nú getur þú farið að halda á þeim oft á dag til að venja þá við! Passaðu að gefa þeim ennþá mat eins og hafragraut, kjúkling, barnamat.
“Weaning”:
Oftast venur mamman ungana af spena um 3 vikna. Þú gætir tekið eftir því að hún ýtir þeim í burtu með loppunum. Á þessum aldri fara unganir líka að leika sér saman og stundum getur það líkst slagsmálum. Það er eðlilegt. Ekki taka þá í sundur fyrr en 4 vikna nema það sé virkilega þörf á því (nánari útskýring fyrir neðan).
Hvenær og hvernig skal aðskilja:
Einstaka sinnum verður mamman vond við ungana áður en þeir verða 4 vikna, þá getur þú tekið ungana fyrr en annars ekki. Annars skalt þú taka þá frá mömmu sinni þegar þeir verða 28 daga gamlir. Á þessum tímapunkti vilt þú líka vera með kyn alveg á hreinu svo þú getir sett ungana í tvo hópa – einn fyrir stráka og annan fyrir stelpur, því þeir verða líka kynþroska um þennan aldur. Ef þú ert ekki viss með kyn á einhverjum unganum myndi ég setja þann unga með strákunum. Ástæðan fyrir því er sú að þú vilt frekar að það sé ein stelpa með strákunum heldur en það sé einn frjór strákur með öllum stelpunum og þær verði allar ungafullar.
Nú getur þú gefið ungunum hjól.
Eftir 5 vikna skalt þú fara að fylgjast með hvort ungarnir séu farnir að rífast og fjarlægja vandræðagemsana úr hópunum. Munurinn á leik og slagsmálum eru til dæmis hljóðin, ef þeir eru að meiða hvort annað kemur meira sársaukavæl. Þegar þeir slást bíta þeir líka eyru, andlit og afturenda. Fylgstu vel með.
Þegar þeir eru tilbúnir á heimili:
6 vikna gamlir eru þeir tilbúnir á ný heimili. Ég mæli klárlega með að leita að heimilum án þess að fara í gegnum dýrabúð en skil að það er ekki alltaf möguleiki. Ef þú keyptir mömmuna ólétta úr dýrabúð getur þú prufað að hafa samband við þau og athugað hvort þau taki við ungunum. Þú getur búið til auglýsingu og deilt á facebook, það eru ýmsir hópar þar. Þú getur prufað að tala við vini og ættingja og spurt hvort þau hafi áhuga á unga. Mundu alltaf eftir að gefa þeim upplýsingar um hvernig skal hugsa um hamstra og vertu viss um að eigendurnir séu allir góðir.
Sendu smá matinn sem þeir hafa verið á og smá af undirlaginu þeirra með þeim á ný heimili.
Handmötun:
Oft er allavega einn ungi sem er veikburðari en hinir, og oft er þeim unga hent úr hreiðrinu. Í staðinn fyrir að setja hann aftur í hreiðrið getur þú reynt að fá mömmuna til að taka við honum sjálf. Það er frábært ef hún tekur hann, en stundum þarf að handmata. Það er því miður sjaldgæft að ungi undir átta daga gamall lifi það af, svo undirbúðu þig undir það að unginn komist ekki á legg. Það hljómar kannski svartsýnt en því miður er mjög erfitt að handmata hamstra.
Þú munt þurfa:
Hitapúða
Bómullarskífur
Pensil eða svamp sem er notaður í förðun
Mjólk gerða fyrir kettlinga
Það er mjög mikilvægt að gefa þeim næringu á eins til tveggja tíma fresti, allan sólarhringin. Lestu leiðbeiningarnar frá kettlinga mjólkinni og gefðu unganum mjólk með svampinum eða pensli. Það kemur í veg fyrir að unginn andi inn mjólkinni. Eftir að unginn hefur nærst verður þú að örva þarmana með bómullarskífunni. Passaðu að unganum sé alltaf hlýtt.
Erfiðar fæðingar:
Fylgstu með hvort það komi hávaði frá mömmunni í hríðum (væl eða öskur), og hvort það komi alltof mikið blóð.
Ef þú tekur eftir þessum merkum skaltu tala við dýralækni. Þetta þýðir því miður oft að það sé ungi fastur.
Þú þarft líka að fylgjast með hvort spenarnir verði bláir eftir fæðingu eða hvort það komi gröftur úr kynfærum.
Ef þið hafið frekari spurningar endilega hafið samband. Við vonum að þessi grein hjálpi þeim sem fá óvart ungafulla hamstra í sínar hendur og ýti ekki undir ræktun.